Það er stefnt að því að það gerist 18. og 19. júní,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins hf., fasteignafélags og dótturfélags Landsbankans, þegar hann er inntur eftir því hvenær félagið verður sett á markað. Félagið er alfarið í eigu Landsbankans í augnablikinu en stefnt er að sölu alls hlutafjár. Eignir félagsins nema um 29 milljörðum króna samkvæmt árshlutareikningi
félagsins sem birtur var á dögunum en unnið hefur verið að skráningu félagsins síðan Landsbankinn tilkynnti um þær áætlanir
síðasta sumar. Til stóð að setja félagið á markað á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en nú er stefnt að því að það gerist fyrir lok annars ársfjórðungs.

Eignir endurskipulagðar

Við undirbúning á skráningu félagsins fyrir ári var ákveðið að taka út svokallaðar þróunareignir sem eru með lakari tekjumyndun
en aðrar eignir. Ástæðan fyrir þessu var að félagið hentaði betur fyrir skráningu án slíkra eigna. Þessar eignir voru svo seldar til
Hamla ehf., annars dótturfélags Landsbankans. Þær eignir sem eftir eru í eignasafni Regins eru meðal annars Smáralind og Egilshöll auk annars atvinnuhúsnæðis. Samtals á félagið 160.000 fermetra af fasteignum og er næststærsta fasteignafélag landsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.