*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 8. janúar 2020 16:58

Reginn hækkaði mest í mestu viðskiptunum

Tæplega hálfs milljarðs króna viðskipti með bréf Regins og hækkuðu þau um 2,90%. Jafnmörg félög hækkuðu og lækkuðu.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,53%, niður í 2.119,96 stig, í 2,2 milljarða heildarviðskiptum á hlutabréfamarkaði í dag.

Átta félög lækkuðu í heildina, fjögur stóðu í stað og átta til viðbótar lækkuðu en mestu viðskiptin voru með bréf Reginn, eða fyrir 448,7 milljónir króna, næstmest með bréf VÍS fyrir 258,9 milljónir króna og loks þriðju mestu viðskiptin með bréf Reita, fyrir 240,6 milljónir króna.

Fyrstnefnda félagið, Reginn, hækkaði jafnframt mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,90%, og nam lokagengi þess 23,10 krónum. VÍS hækkaði um 0,54%, upp í 11,26 krónur en Reitir hækkuðu um 0,94%, upp í 74,80 krónur.

Í síðastnefnda félaginu seldu sjóðir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 400 þúsund hluti á rétt tæplega 30 milljónir króna miðað við núverandi gengi í dag. Við það fór eignarhlutur LSR undir 15%, og endaði í 14,97%. Það gerir samanlagt 103,3 milljón hluti sem miðað við þetta verð eru verðlagðir á ríflega 7,7 milljarða króna.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 2,71%, í litlum viðskiptum þó eða fyrir 37 milljónir króna, og fór gengi bréfa félagsins í 37,90 krónur. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 1,58%, í 166 milljóna króna viðskiptum og endaði gengi bréfa félagsins í 192,50 krónum.

Mest lækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 1,80%, í 149 milljóna króna viðskiptum, fór það niður í 82 krónur. Næst mest lækkun var á gengi bréfa TM, eða um 0,82%, niður í 36,50 krónur, í smávægilegum viðskiptum eða fyrir 823 þúsund krónur. Þriðja mesta lækkunin var loks á gengi bréfa Icelandair, eða um 0,78%, niður í 7,64 krónur, í 75 milljóna króna veltu.

Stikkorð: Úrvalsvísitalan Reginn Nasdaq kauphöll