Fasteignafélagið Reginn skilaði tæplega 1,2 milljarða hagnaði á þriðja ársfjórðungi samanborið við 67 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Bætt afkoma skýrist að mestu leyti af matsbreytingu fjárfestingaeigna að fjárhæð 1.174 milljónum á síðasta fjórðungi en árið áður var hún 109 milljónir.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á þriðja fjórðungi jókst einnig um 20% á milli ára, úr 1.649 milljónum í 1.973 milljónir, en til samanburðar var hann 1.759 milljónir á þriðja fjórðungi 2019. Leigutekjur jukust um 12,7% á milli ára og námu nærri 2,6 milljörðum á fjórðungnum. Á sama tíma lækkaði rekstrarkostnaður um 1,6%, úr 792 milljónum í 779 milljónir.

Reginn hagnaðist alls um 4,4 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins en sé litið til sama tímabils í fyrra var hagnaðurinn 162 milljónir. Aftur skýrist munurinn að mestu leyti af matsbreytingu fjárfestingaeigna. Handbært fé frá rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2,6 milljörðum.

„Afkoma félagsins er í samræmi við áætlanir, reksturinn traustur og fjárhagur sterkur. Greinileg og sterk batamerki eru í viðskiptaumhverfi félagsins. Greiðslugeta og greiðsluvilji viðskiptamanna félagsins er kominn í eðlilegt horf. Vísbending er um jákvæðan viðsnúning á tekjum frá veltutengdum leigusamningum í ferðageiranum. COVID-19 áhrifa gætir þó enn í rekstrinum og mun gera svo fram á næsta ár, áhrifin eru takmörkuð og í samræmi við áður kynntar áætlanir,“ segir í tilkynningu félagsins.

Vaxtaberandi skuldir voru 95,5 milljarðar í lok september samanborið við 90,5 í árslok 2020. Eigið fé félagsins er bókfært á 51,3 milljarða og eiginfjárhlutfallið er 31,4%.

Virði eignasafns Regins er bókfært á 155,1 milljarð. Safnið samanstendur af 113 fasteignum sem alls eru um 382 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall á safni Regins er rúmlega 96% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

„Útleiga gengur vel og er áframhald á mikilli eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Unnið er að fjölda verkefna í samstarfi við leigutaka félagsins við standsetningu á leigurýmum,“ segir í tilkynningunni.

Á tímabilinu var ákveðið Reginn að hefja lokafasann í útleigu og uppbyggingu á Hafnartorgi og verða verklok á seinni áfanga verkefnisins í mars 2022. Í fjárfestakynningu félagsins segir að fjöldi rekstraraðila verði rúmlega þrjátíu talsins. Nú sé um 85% af rýminu í útilegu, 7% sé frátekið og 8% laust. Væntar árlegar leigutekjur Regins af Hafnartorgi er áætlaðar um 650 milljónir frá og með árinu 2025.