Hagnaður Regins eftir tekjuskatt á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2,2 milljörðum sem er 21% lækkun frá fyrra ári. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri hjá fyrirtækinu.

Rekstur og afkoma

Rekstur félagsins er að mestu samkvæmt áætlunum Rekstrartekjur námu 5.844 m.kr. og þar af námu leigutekjur 5.431 m.kr. Hækkun leigutekna frá sama tímabili í fyrra var 14%. Hækkun leigutekna er að mestu tilkomin vegna nýrra eigna.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 3.746 m.kr. en hefur hækkað um 14% á milli ára.

Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði er góð, það sem af er ári hefur verið gengið frá nýjum leigusamningum fyrir um 37.000 m2. Um 40% af þessum samningum er endurnýjun á eldri samningum.

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins er fjölbreytt og samanstendur af góðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 121 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 370 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1.932 m.kr. Þann 12. september lauk lokuðu útboði á nýjum skuldabréfaflokki félagsins, REGINN250948 sem gefinn var út undir útgáfuramma félagsins. Seld voru skuldabréf fyrir 17.180 m.kr. skuldabréfin bera 3,6% fasta verðtryggða vexti, eru til 30 ára og voru seld á pari. Flokkurinn er veðtryggður með sértæku tryggingarfyrirkomulagi. Skráning skuldabréfaflokksins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf., fór fram í október sl.

Umsvif og horfur

Fyrstu níu mánuðir ársins 2018 hafa verið viðburðarríkir hjá félaginu og sem fyrr einkennst af miklum umsvifum við fjárfestingar í nýjum verkefnum og leigusamningum. Síðasti hluti umbreytingar í Smáralind, stærstu eign félagsins, er nú á lokametrunum. Frá hausti og fram í apríl 2019 munu fimm þekkt alþjóðleg vörumerki opna nýjar verslanir í Smáralind. Þegar hafa verið kynnt áform H&M Home að opna flaggskipsverslun í Smáralind í desember nk. Einnig mun New Yorker opna í nóvember í austurenda hússins og verður sú verslun glæsileg viðbót við alþjóðlega flóru í Smáralind. Í október opnaði H&M verslun á Hafnartorgi fyrir fatnað og H&M Home. Viðtökurnar við þeirri verslun hafa verið mjög góðar.