Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 534 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er nokkur samdráttur á milli ára en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 983 milljónum króna. Þetta jafngildir því að hagnaður á hlut eftir fyrri hluta ársins nam 41 aur nú borið saman við 76 aura á hlut eftir fyrstu sex mánuði síðasta árs.

Á meðal þekktustu fasteigna Regins er Egilshöll í Grafarvogi og eignarhaldsfélagið Smáralind, sem á samnefnt verslanahúsnæði í Kópavogi.

Fram kemur í uppgjöri Regins að rekstrartekjur námu rétt rúmum 1,9 milljörðum króna samanborið við tæplega 1,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir 1.159 milljónum króna en nam 919 milljónum í fyrra. Vaxtaberandi skuldir Regins námu 22.869 milljónum króna í lok júní samanborið við 19.297 milljónir í lok síðasta árs. Þá nam eigið fé frá rekstri 605 milljónum króna og voru fjárfestingareignir metnar á 35.749 milljónir króna.

Unnið að stækkun Regins

Þá segir í uppgjörinu að fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers uppgjörtímabils í tengslum við gerð árshluta og ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Matsbreyting á tímabilinu er 435 milljónir króna.

Þá er rifjað upp að frá haustinu 2012 hafi verið unnið að stækkun og styrkingu á eignasafni félagsins. Á því tímabili hafa verið gerðir samningar um kaup á fimm minni fasteignafélögum og tveimur fasteignum. Hluti kaupanna er frágenginn en hluti í vinnslu. Ekki hefur þurft að auka eigið fé félagsins við þessi kaup en áætlað er að eiginfjárhlutfall verði um 32% þegar þessi kaup eru að fullu um garð gengin. Að loknum þessum kaupum verður fjöldi fasteigna í eigu félagsins 44 og heildarstærð fasteigna um 189 þúsund fermetrar.