Rekstrartekjur Regins fasteignafélags námu 1.643 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017. Þar af voru leigutekjur 1.523 milljónir króna samanborið við 1.391 milljónir króna á sama tímabili árið 2016, vöxtur leigutekna frá fyrra ári var því 9%. Hagnaður Regins á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 nam 620 milljónum króna samanborið við 750 milljónir króna á sama tímabili árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.020 milljón krónum og jókst um 2% frá fyrra ári. Bókfært virði fjárfestingaeigna félagsins í lok tímabilsins er 84.086 milljónir króna og var handbært fé frá rekstri félagsins 1.066 milljónir króna.

Vaxtaberandi skuldir Regins voru 49.259 milljónir króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 samanborið við 49.499 milljónir króna í árslok 2016. Skuldsetning sem hlutfall af fjárfestingareignum er 59%. Eiginfjárhlutfall félagsins er nú 35% og nam hagnaður á hlut fyrir tímabilið 0,4 samanborið við 0,52 fyrir sama tímabil í fyrra.

Opnun H&M í ágúst - horfur góðar

„Áætlað er að Eignarhaldsfélagið Smáralind muni afhenda H&M nýtt 4.300 m2 leigurými í vesturenda Smáralind í júní en H&M hefur tilkynnt að verslunin muni opna í ágúst nk. Verslunin í Smáralind verður sú fyrsta á Íslandi og flaggskip H&M hér á landi. Miklar breytingar hafa þegar átt sér stað í Smáralind og má þar nefna opnun nýrra verslana í austurenda s.s. Hagkaup, Útilíf, Síminn, Tiger, Nova og ÁTVR.  Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og að ekki séu vísbendingar um annað en að áætlanir félagsins standist í öllum aðalatriðum,“ segir í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.