Fasteignafélagið Reginn hefur á síðustu misserum einsett sér að leigja húsnæði til fleiri opinbera aðila. Félagið hefur sett sér markmið um að yfir 35% tekna félagsins komi frá opinberum aðilum. Sem stendur er hlutfallið 31% samkvæmt fjárfestakynningu sem félagið birti í morgun. Þar af nemur samningur við Reykjavíkurborg 14% en Reginn leigir Reykjavíkurborg meðal annars skrifstofur í Borgartúni 12-14

Í kynningunni er bent á að félagið hafi frá upphafi stefnt á að auka hlutfall opinber leigutaka. Í uppgjöri þriðja ársfjórðungs kom fram að félagið stefndi að því að ljúka leigusamningi við Vegagerðina um Suðurhraun 3 í Garðabæ á 6.000 fermetra húsnæði. Einnig væri unnið að því að stækka húsnæði lögreglustjórans á Suðurnesjum og unnið að leigusamningi við Heilsugæsluna í Bæjarlind. Félagið hefur nýlega skrifað undir samninga við Embætti landlæknis um útleigu á 6. hæð Höfðatorgsturnsins

Frá skráningu félagsins á markað fyrir ríflega sjö árum hefur bókfært virði eigna Regins fimmfaldast. Það hefur notið góðs af hækkun fasteignaverðs auk þess að hafa keypt fjölda eignasafna. Virði eignasafns Regins er í dag 136 milljarðar króna en vaxtaberandi lán félagsins voru 83 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs.

Fjárfestakynningin er birt í tilefni af skuldabréfaútboði sem félagið heldur 5. desember. Útboðið verður lokað og með hollenskri aðferð, þ.e. öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á hæstu ávöxtunarkröfu sem tekið er. Fossar markaðir hafa umsjón með útboðinu.