Skrifað var í gær undir samkomulag um kaup fasteignafélagsins Regins á öllu hlutafé í fasteignafélaginu Klasa fasteignum. Fram kemur í tilkynningu að kaupin miðist við að heildarvirði Klasa sé 8.250 milljónir króna að og að greitt verði fyrir eignarhluti í félaginu með hlutafé í Reginn að nafnverði 128.700.000 króna auk peningagreiðslu. Nýtt hlutafé í Reginn sem sérstaklega þarf að gefa út vegna kaupanna miðast við fast gengi 13,63 krónur á hlut sem var lokagengi hlutabréfa Regins í Kauphöllinni á föstudag.

Núverandi eigendur Klasa eru einkafjárfestar og munu þeir eignast um 9% hlut í Reginn ef af kaupum verður. Félagið Sigla ehf. er seljandi 95% hlutar í Klasa fasteignum og mun eftir viðskiptin eignast um 8,6% hlut í Reginn og yrði því með stærstu hluthöfum í félaginu. Fram kemur í tilkynningu frá Reginn að Sigla lítur á viðskiptin sem langtímafjárfestingu í Reginn og hefur því samþykkt sölubann á hlutum sínum í félaginu í 9 mánuði frá greiðsludegi.

Klasi með níu fasteignir

Þá segir í tilkynningunni að fjárhagsstaða Klasa er sterk, útleiguhlutfall hátt og leigutekjur góðar eða yfir 700 milljónum króna á ársgrundvelli. Félagið er fjármagnað með skráðum skuldabréfaflokki, KLS1, fagfjárfestasjóði í vörslu Stefnis. Fasteignasafn Klasa, sem Reginn eignast verði af kaupunum, eru níu fasteignir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru fasteignirnar Skútuvogur 2,  Bíldshöfði 9 (7. hæð),  Síðumúli 7-9 (hluti) og Síðumúli 28, Guðríðarstígur 6-8 og Hádegismóar 4, Litlatún 3 og Garðatorg 1 í Garðabæ og Eyrartröð 2a í Hafnafirði. Leigutakar eru um 30 talsins. Helstu leigutakar eru Vodafone, Hagkaup, Árvakur, Garðabær og Víðir. Fasteignirnar eru allar í 100% eigu félagsins utan Síðumúla 7-9 og Bíldshöfða.

Undirritað samkomulag aðilanna er með fyrirvara um að niðurstaða áreiðanleikakannana  leiði ekki í ljós atriði sem breyta að verulegu leyti því mati Regins sem lagt er til grundvallar kaupunum.  Auk þess er fyrirvari um að hluthafafundur í Reginn hf. falli frá forgangsrétti til áskriftar á hinu nýja hlutafé, samþykki  Samkeppniseftirlitsins og að nýtt hlutafé verði skráð í Kauphöll.

Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um rúmlega 20% miðað við útgefna rekstrarspá fyrir 2014 og eignasafn stækki um 15%.  Kaupin eru í samræmi við  fjárfestingastefnu Regins sem felur í sér markmið um að auka hlutdeild í skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði og stækkun með innri vexti og fjárfestingu í arðbæru atvinnuhúsnæði.

Ráðgjafi Reginn hf. í viðskiptum þessum  er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans  og ráðgjafi Klasa fasteigna ehf. er Arctica Finance.