Fasteignafélagið Reginn komst í dag að samkomulagi um kaupsamning við Krypton, eiganda fasteigna KEA hótela á Akureyri, og Keahótel ehf. rekstraraðila hótelsins, um kaup á fasteigninni sem hýsir rekstur hótel KEA, það er fasteignin að Hafnarstræti 83 til 89 á Akureyri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Regin til kauphallarinnar í kvöld. Kaupverð er ekki gefið upp í tilkynningunni.

„Hluti af samkomulaginu er áframhaldandi leigusamningur við Keahótel ehf. Samkomulagið er gert með fyrirvara um niðurstöður úr áreiðanleikakönnun. Aðilar setja sér sem markmið að undirritun endanlegs kaupsamnings liggi fyrir í fyrstu viku októbermánaðar. Kaupverðið er trúnaðarmál en áhrif kaupanna ef af verða eru áætluð yfir 5% aukning á EBITDA Regins hf.,“ segir í tilkynningunni.

Eins og greint var frá á vb.is í dag hækkaði hlutabréfaverð í Regin í kauphöllinni í dag um 1,4%. Velta var töluverð og mikil í samanburði við fyrri viðskiptadaga, eða um 270 milljónir. Gengi bréfanna stendur í 8,69 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra.