Fasteignafélagið Reginn og Verkfræðistofan Verkís hafa undirritað leigusamning um fasteignina Ofanleiti 2 sem er í eigu Regins. Samkvæmt samkomulaginu verður húsnæðið afhent í áföngum og m.a. fyrirvörum um afhendingartíma, umfang breytinga og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar vegna kaupa á núverandi eignum sem hýsa starfsemi Verkís.  Að auki er fyrirvari um samþykki stjórna félaganna. Ekkert er gefið upp um hugsanleg verðmæti viðskiptanna.

Reginn kaupir félög Verkís

Reginn hefur samhliða þessu gert tilboð um kaup á ýmsum fasteignafélögum sem eiga fasteignir sem hýsa núverandi starfsemi Verkíss, s.s. Stórhöfða ehf og Goshóll ehf en félögin eiga hluta Suðurlandsbrautar 4 í Reykjavík; Almenna byggingarfélagið ehf sem á hluta af Fellsmúla 26 í Reykjavík; VIST ehf sem á eignirnar Ármúla 4 og 6 í Reykjavík, hluta Austurvegs 8a og 10 á Selfossi, Kaupvang 3b á Egilsstöðum og hluta Hafnarstrætis 1 á Ísafirði. Þá tekur tilboðið sömuleiðis til eigna á Ísafirði, Egilstöðum og Selfossi.

Fram kemur í tilkynningu frá Regin að tilboðin í fasteignafélögin hafa verið samþykkt með fyrrgreindum fyrirvörum.

Báðir aðilar stefna að því að fyrir liggi ákvörðun þann 8. mars nk. um hvort fyrirvarar verði felldir niður. Á það við bæði um leigutilboðið og kaup á fasteignunum.

Áætluð aukning á EBITDA samstæðunnar vegna útleigu á Ofanleiti 2 til eins aðila er um 4%. Hins vegar liggur ekki fyrir um nákvæm áhrif á EBITDA Regins samstæðunnar vegna eigna sem verið er að kaupa og eru ekki að fullu útleigðar nú, en gera má ráð fyrir að áhrifin verði allt að 5 % hækkun á EBITDA félagsins, að því er segir í tilkynningunni.