Fasteignafélagið Reginn keypti í byrjun ársins 90% hlut í félaginu Sóltún fasteign ehf. sem á fasteign hjúkrunarheimilisins Sóltúns við samnefnda götu af félaginu Öldungi ehf., sem mun áfram eiga 10% hlut í félaginu. Öldungur er í eigu Íslenskrar fjárfestingar sem er í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.

Í ársreikningi Regins kemur fram að kaupverðið að Sóltúni 2 hafi verið 3,8 milljarðar króna, og að fullu fjármagnað með lánsfé.

Öldungur rekur hjúkrunarheimilið Sóltún á grundvelli þjónustusamnings við íslenska ríkið. Kaupin munu ekki hafa áhrif á rekstur og starfsemi hjúkrunarheimilisins eða leigusamning Öldungs á húsnæðinu.

Í uppgjöri Regins kemur fram að markmið samstarfsins sé m.a. „að skapa öflugan aðila sem getur tekið þátt í verkefnum á sviði hjúkrunarheimila og lausna fyrir ört stækkandi hóp eldri borgara.“

Reginn bendir á að mikil fjárfestingarþörf sé fyrirséð í uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi og öðrum húsnæðislausnum fyrir eldri borgara á komandi árum og áratugum. Fjárfestingin sé fyrsta skrefið í átt að mögulegum fjárfestingum í þessum geira hjá Regin.