Hlutabréf í íslenska fasteignafélaginu Reginn verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag, á aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland. Félagið flokkast sem lítið félag (e. small cap) innan fjármálageirans en það er fjórða félagið sem er skráð á aðalmarkað NASDAQ OMX Nordic á þessu ári. Hérlendis er um að ræða fyrstu skráningu ársins 2012. Reginn er fyrsta fasteignafélagið sem skráð er á íslenskan markað.

„Reginn hefur síðan frá hausti 2010  stefnt að skráningu á markað. Þessi áfangi markar hins vegar ekki endi á ferlinu heldur nýtt upphaf í sögu félagsins. Um þúsund hluthafar standa nú að baki Regin sem sýnir mikið traust á eignasafni, rekstri  og framtíðarsýn félagsins. Við teljum mikil sóknarfæri framundan og þetta mun auðvelda félaginu að nýta þau sem best,“ segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins í tilkynningu um upphaf viðskipta með bréf félagsins.