Í dag var undirritað samkomulag á milli Regins hf. Vátryggingarfélags Íslands hf. og eigenda fasteignafélagsins FM-hús ehf. um kaup Regins og VÍS á 63% hlutarfjár í FM-húsum. Eignarhlutur Regins í félaginu verður 47% og VÍS mun eignast 16%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Kaupin á FM-húsum miðast við að heildarvirði eignarsafns félagsins sé 3,75 milljarðar. Gert er ráð fyrir að félagið verði nánast skuldlaust við kaupin. Einnig kemur fram að Nýir hluthafar í félaginu munu greiða fyrir eingarhluti sína með reiðufé. Arðsemi viðskiptanna er um 7%.

„Tilgangur viðskiptanna er að kaupa gott og arðbært eignasafn sem mun að ákveðnum tíma liðnum verða alfarið í eigu Regins. Kaupin eru í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins og þá sýn að fjölga samstarfsverkefnum þar sem einkaaðilar og opinberir aðilar vinna saman að uppbyggingu og rekstri verkefna,“ segir í tilkynningunni.

Ráðgjafi Regins í viðskiptunum er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Eftir viðskiptin verða hluthafar FM-húsa auk Regins og VÍS, Benedikt Rúnar Steingrímsson sem kemur til með að eiga 18,5% hlut, Magnús Jóhannsson sem kemur til með að eiga 14,8% hlut og Særún Garðarsdóttir sem kemur til með að eiga 3,7% hlut.