Eftir umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku þar sem vitnað var í orð Karl-Johan Persson forstjóra H&M Group um að búið væri að staðfesta opnun fataverslunarkeðjunnar í Kringlunni, en ekki í Miðbænum hafa stjórnendur Regins sent H&M erindi.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Karl-Johan Persson að þegar væri búið að ákveða tvær verslanir, það flaggskipsverslun H&M í Smáralindinni en hann kom til landsins í tilefni að opnun hennar, sem og verslunin í Kringlunni sem opnar 28. september næstkomandi.

Um verslunina í Miðbænum sagði hann hins vegar: „Ein er í vinnslu en auðvitað sjáum við til. Við munum halda áfram að skoða nýjar staðsetningar, en ef þetta gengur ekki vel hér í þessari verslun mun það auðvitað hafa áhrif á okkar ákvarðanir.“

Stjórnendur Regins hafa í kjölfarið óskað eftir staðfestingu forsvarsmanna H&M um að enn standi til að opna þriðju verslunnina hér á landi á fyrirhuguðu Hafnartori í miðbænum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins segir ummæli Karl-Johan koma sér á óvart, og vísaði í leigusamning sem undirritaður var í júlí í fyrra. Félagið keypti 8.600 fermetra verslunar- og veitingarými á Hafnartorgsreitnum sem er nú í byggingu, en áætluð verklok er um mitt næsta ár.

„Það er búið að skrifa undir tvo samninga um þessa leigufermetra sem við kynntum og þeir eru enn í gildi. Það er verið að byggja þessi hús og sérinnrétta fyrir H&M og samskipti oft í viku við hönnunarteymi þeirra og þetta er á fleygiferð,“ segir Helgi en spurður hvort H&M sé kjölfestuleigjandi á Hafnartorginu vísar hann í stærðarmun verslananna.

„Auðvitað er þetta stórt svæði en þetta er minni verslun en flaggskipið í Smáralind en stærri en verslun þeirra í Kringlunni.“