Hagnaður Regins hf. á síðasta ári nam 2.599,4 milljónum króna en var 1.311,1 milljónir króna árið 2011. Rekstrartekjur félagsins jukust úr 3.171,2 milljónum króna árið 2011 í 3.483,8 milljónir í fyrra. Stjórnunar- og markaðskostnaður lækkaði úr 392 milljónum króna úr 311,7 milljónir í fyrra. Kostnaður við skráningu félagsins á markað nam alls 68,2 milljónum króna.

Hrein fjármagnsgjöld hækkuðu úr 1.655,2 milljónum króna í 1.834 milljónum króna, en það er einkum vegna þess að fjármunatekjur lækkuðu um tæpar 400 milljónir og vóg 220 milljóna króna lækkun fjármagnsgjalda það ekki upp.

Eignir Regins hækkuðu úr 29,9 milljörðum króna í 32,2 milljarða og eigð fé jókst úr 6,7 milljörðum króna í 11,1 milljarð. Skuldir lækkuðu þvi úr 23,3 milljörðum króna í 21,1 milljarð, en það er einkum vegna umtalsverðrar lækkunar á skammtímaskuldum. Langtímaskuldir jukust um 1,2 milljarð króna.

Handbært fé frá rekstri nam 1,3 milljörðum króna í fyrra en var 280 milljónir árið 2011. Handbært fé í árslok 2012 nam 1,7 milljörðum króna en var 862 milljónir ári áður.

Stjórn Regins leggur til að ekki verði greiddur arður í ár vegna reikningsársins 2012.