Reginn skilaði 1,8 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 209 milljóna tap á öðrum fjórðungi 2020. Þar munar þó um að matsbreytingar fjárfestingaeigna voru jákvæðar um 2,6 milljarða á fjórðungnum í ár en voru neikvæðar um 15 milljónir í fyrra. Leigutekjur Regins jukust um 13% á milli ára og námu 2,5 milljörðum króna á fjórðungnum.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar fjárfestingaeigna jókst um 23,4% milli ára og nam 1,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður sem hlutfalla af leigutekjum jókst úr 67% í 74% frá fyrra ári. Matsbreyting fjárfestingaeigna voru jákvæðar um 2,7 milljarða og því nam rekstrarhagnaður Regins 4,5 milljörðum króna.

Virði eignasafns félagsins er metið á 153 milljarða en safnið samanstendur af 113 fasteignum sem alls eru um 382 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 96% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

„Hækkun hefur orðið á leiguverði og er umtalsverð hækkun sýnileg á meðalfermetraverð á nýjum samningum fyrstu 6 mánuði ársins samanborði við árið á undan,“ segir í fjárfestakynningu fyrir uppgjörið.

Það sem af er ári hefur félagið sótt sér 28 milljarða í lánsfjármagn bæði hjá lánastofnunum og með skuldabréfaútgáfum. Sé litið til síðustu tveggja ára hefur félagið sótt sér 58 milljarða í hagstæðari fjármögnun og þannig lækkað meðalvexti verðtryggðra lána um 1 prósentustig á sama tímabili. Meðalvextir verðtryggðra lána hjá Reginn eru nú 2,88% eftir skuldabréfaútboð félagsins í vikunni.

Á síðustu 12 mánuðum hafa verið seldar sex eignir sem alls telja 5.800 fermetra. „Allt stakar minni eignir fyrir utan kjarnasvæða félagsins.“ Söluverð er um 1.520 milljónir sem er 22% yfir bókfærðu virði. Tekjur frá þessum eignum voru um 100 milljónir á ársgrunni. Um er að ræða eftirfarandi eignir:

  • Mörkin 4
  • Fiskislóð 53-59
  • Bankastræti 9
  • Álfabakki 12
  • Lónsbraut 4
  • Skútuvogur 1

Undirritaðir voru samningar fyrir eignir sem telja 6.600 fermetra á öðrum ársfjórðungi sem er þriðjungi meira en sama tímabil 2020. Þá voru stór leigurými afhent til nýrra leigutaka á fjórðungnum:

  • Nýjar höfuðstöðvar Vegagerðarinnar voru afhentar á fjórðungnum. Alls um 6.000 fermetrar að Suðurhrauni 3.
  • Flugfélagið Play flutti höfuðstöðvar sínar að Suðurlandsbraut 14, en samningur við félagið var undirritaður í júní.
  • Ný rými í Smáralind voru afhent leigutökum í tengslum við áherslubreytingar sem aðilar vinna að í samvinnu.

Í fjárfestakynningunni segir að talsvert sé um stóra leigusamninga í vinnslu sem stefnt er á að undirrita nú á þriðja ársfjórðungi.

Skýr merki um að atvinnulífið sé að taka við sér

Fram kemur að staða félagsins og viðskiptavina vegna COVID áhrifa sé í samræmi við áætlanir. Áhrifin gæti ekki á langstærstan hluta viðskiptavina. Þá séu „skýr merki eru um að atvinnulíf sé að taka sterkt við sér.“

Opnun hótela og þróun leigutekna frá þeim er sögð í góðu samræmi við fyrri plön. Gert er ráð fyrir að verslun í miðbæ verði komin á fullt skrið seint í haust.

Stærri veitingaeiningar, sem byggja á innlendri eftirspurn, tóku við sér í vor en fjórða bylgjan og umræða henni tengd hafði neikvæð áhrif á aðsókn. Veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur sem leigja hjá félaginu séu að jafnaði að ganga vel. Aðsókn að kvikmyndahúsum hefur skánað en á langt í land. Félagið býst við að kvikmyndahús verði komin „á þokkalegt ról“ næsta vetur.