Fasteignafélagið Reginn gerði í dag tilboð í kaup á öllu hlutafé Eik fasteignafélags. Tilboðið nær til allra hluthafa þó þarf að lágmarki samþykki 68% eigenda hlutafjár í félaginu. Fram kemur í tilkynningu Regins að kauptilboðið miðast við að greitt verði fyrir allt hlutafé í félaginu með nýju hlutafé í Reginn upp á 603 milljónir króna að nafnverði.

Kauptilboð  byggir á að hver hlutur í Reginn sé metinn á 13,53 krónur á hlut sem er meðalgengi síðustu fimm viðskiptadaga og hver hlutur í Eik fasteignafélagi sé metinn á 5,05 krónur á hlut.

Gangi viðskiptin eftir og allt hlutafé í Eik fasteignafélagi hf. verði keypt mun það þýða að nýir eignarhlutir í Reginn hf. sem gefnir verða út vegna kaupanna munu nema u.þ.b. 32% af heildarhlutafé félagsins.

Hverjir eiga hvað?

Um síðustu áramót voru hluthafar Eik fasteignafélags 30 talsins. Þrír hlutahafar áttu samkvæmt ársreikningi meira en 10% í félaginu, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti 14,8%, Almenni lífeyrissjóðurinn 13,7% og Lífeyrissjóður verkfræðinga 13,2%.

Fasteignafélagið Reginn var skráð á markað í júlí í fyrra. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafi félagsins með 12,26% hlut. Gildi lífeyrissjóður á 8,51%. Á meðal annarra á lista yfir tíu stærstu hluthafa félagsins eru tveir sjóðir Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Landsbankinn, Stapi lífeyrissjóður og Íslandsbanki.