Fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja hefur varað japönsk stjórnvöld við því að verði fyrirhugaðar breytingar á viðskiptareglum landsins að veruleika muni þau neyðast til að hætta rekstri sínum þar í landi enda muni breytingarnar jafnvel kosta fyrirtækin hundruð milljóna evra.

Breytingarnar gera það að verkum að þau hlutafélög sem starfa aðallega í Japan en eru skráð erlendis verða ólögleg. Því yrði nauðsynlegt að skrá hlutafélögin í Japan sem aftur hefði áhrif á skatt- og lífeyrisgreiðslur fyrirtækjanna.

Breytingarnar myndu taka til nær allra evrópskra og bandarískra fjárfestingabanka í Japan, auk alþjóðlegra lögfræðistofa og fjölda annarra fyrirtækja. Evrópska viðskiptaráðið og bandaríska verslunarráðið í Japan reyna eftir fremsta megni að fá þarlend stjórnvöld ofan af fyrirætlunum sínum en nefndirnar telja að mögulega gæti komið til deilu innan Alþjóðaviðskiptaráðsins verði reglubreytingarnar að veruleika.