*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 28. janúar 2019 19:01

Reglugerðarbáknið vaxið mikið

Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernis vonast til að fá fljótari afgreiðslu á annarri skrúfuþotu til landsins.

Höskuldur Marselíusarson
Þegar Hörður Guðmundsson hjá Flugfélaginu Erni keypti Twin Otter vélina sína 1988 var henni flogið beint vestur á Ísafjörð, en skráð samdægurs með símtali. Nýja vélin sem er lengst til hægri á mynd, fékkst ekki skráð fyrr en eftir nærri hálft ár.
Haraldur Guðjónsson

Hörður Guðmundsson forstjóri Flugfélagsins Ernir sagði frá því í Viðskiptablaðinu fyrir helgi að félagið ætti fyrir skuld við ISAVIA sem leiddi til þess að nýjasta skrúfuþota félagsins var kyrrsett. Féð væri hins vegar bundið í húseign félagsins á Reykjavíkurflugvelli sem hefði verið endurnýjað fyrir tveimur árum, en fengist ekki veðsett, því formlega er eignin skráð á ríkið. 

„Á sama tíma og skuldin hleðst upp hjá ríkisfyrirtækinu Isavia, þá er húsið okkar má segja í gíslingu hjá ríkinu,“ sagði Hörður sem jafnframt sagði frá því að vélin hefði m.a. verið keypt til að auka þjónustu við ferðaþjónustufyrirtæki sem keypt hefði 26 sæti af 32 í vélinni í ferðum hennar til Hafnar í Hornafirði í allt sumar. 

Hörður hefur séð margt á löngum flugmannsferli en hann benti á að ónógt viðhald flugvalla hefði kostað félagið milljónir, sem og að samkeppnin í flugi hafi oft verið óvægin. Eins og kunnugt er gat vélin sem kom í byrjun sumars ekki farið í sitt fyrsta flug fyrr en í desember vegna tafa við skráningarferli. Hörður telur sig ekki vera að teygja sig of langt með þessum kaupum. 

„Við teljum svo ekki vera, þetta er náttúrlega búin að vera hægfara uppbygging á mörgum árum, 70 starfsmenn en veltan er um 1,2 milljarðar. Við erum með fjórar nítján sæta Jetstream vélar enda ágætt að vera með samstæðan flota, til þess að vera ekki með mismunandi þjálfun og annað slíkt á mannskapnum okkar. Það kostar auðvitað gífurlegan pening að þjálfa mannskapinn upp á nýja gerð véla.“ 

Hann vonast til þess að það verði ekki sama vandamálið að fá samskonar lánsvél, sem er í kortunum að félagið fái til landsins, skráða. „Þetta er mikið reglugerðarbákn, þar sem enginn greinarmunur er gerður á litlu félagi og stóru þegar komið er með vélar í okkar stærðarflokk. Ég gerði ráð fyrir að geta notað vélina lungann úr síðasta sumri, en við gerðum okkur ekki grein fyrir hve langan tíma skráningin gæti tekið. 

Við hefðum getað tekið hana inn í notkun á þýsku skráningunni og notað tímann til að ganga frá umskráningunni meðan hún var í notkun, en okkur hafði verið ráðlagt að skrá hana hér heima og því miður var tekin sú ákvörðun. Ætli maður sé ekki enn í gamla hugsunarhættinum, en þegar við keyptum til dæmis Twin Otterinn okkar árið 1988 flugum við henni beint á Ísafjörð frá Bandaríkjunum. 

Þá höfðum við samband við flugmálastjóra sem sagði bara sínu fólki að drífa sig í að skrá vélina hans Harðar, hann væri að fara að fljúga henni á morgun. Í dag er flugmálastjórn í raun orðin partur af EASA, Flugöryggisstofnun Evrópu, og það má segja að stofnunin hér sé orðin hluti af evrópska reglugerðarbákninu. Sjálfstæði flugmálayfirvalda hér á landi er mun minna en áður var, enda þeir sjálfir undir sama eftirliti og við, og erfiðara að fá undanþágur ef á þarf að halda. Eftirlitsiðnaðurinn er orðinn mjög sterkur, en við höfum alltaf komið vel út úr öllum prófunum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.