Enginn vafi er á því að markmiðið sem stefnt var að með opnun sóttvarnahús var lögmætt og helgaðist af almannahagsmunum. Ákvörðun um að vista ferðalanga á því í fimm daga átti sér vissulega stoð í reglugerð en umrætt reglugerðarákvæði átti sér ekki stoð í nýbreyttum sóttvarnalögum. Svo eru röksemdir Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir því að vistun í sóttvarnahúsi standist ekki lög.

Sóttvarnalögum var breytt í febrúarmánuði en tilefni og nauðsyn ættu að vera á allra vitorði. Við þinglega meðferð frumvarpsins gerði velferðarnefnd þingsins nokkrar breytingatillögur en meðal þeirra var skilgreining á sóttvarnahúsi. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er það staður, þar sem einstaklingur sem ekki býr hér eða getur ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun.

Í málunum var ekki deilt um að fólkið, sem gert var að vera í húsinu, hefði lögheimili á Íslandi og að það væri viljugt til að verja sóttkví heima hjá sér. Að mati dómsins er það að mörgu leyti sambærileg frelsisskerðing að vera í heimasóttkví eða í sóttvarnahúsinu en þó „verður af ýmsum, sumpart augljósum, ástæðum að telja dvöl þar þungbærari en dvöl í heimahúsi“.

Meginreglur stjórnskipunarinnar um jafnræði borgaranna og meðalhóf myndu leiða til þess að strangar kröfur yrði að gera til lagastafa sem skertu frelsi með þessum hætti. Staðan væri hins vegar sú að reglugerðarákvæðið, sem frelsissviptingin sótti stoð í, rúmaðist ekki innan ramma laganna. Af þeim sökum yrði að fella ákvörðunina þá þegar úr gildi og óþarft að fjalla um aðbúnað fólks í sóttvarnahúsinu.

Nær tæpast til Landsréttar

Í forsendum úrskurðarins benti dómurinn á að sóttvarnalæknir gæti hvenær sem er gripið til aðgerða til bráðabirgða án þess að leita eftir heimild ráðherra. Þá væri ekki tekin afstaða til eftirlits með væntanlegri heimasóttkví þeirra sem hingað koma eða skilyrðum til aðstæðna þar.

„Einnig verður að líta svo á að undir þeim kringumstæðum sem skapast hér, sé nauðsynlegt að farið verði yfir mál hvers og eins ferðamanns sem dvelur í sóttvarnarhúsi kjósi viðkomandi að freista þess að binda enda á dvöl sína þar,“ sagði í úrskurðinum. Kröfu um skaða- og miskabætur var að sjálfsögðu vísað frá dómi enda sætti málið sérstakri meðferð fyrir dóminum.

Í málunum reyndi einnig á réttarfarsleg atriði um í hvaða þinghá skyldi stefna málunum inn þar sem sóttvarnalög kveða á um að bera skuli ágreining undir þinghá þess héraðsdóms er ákvörðun um dvöl er tekin. Reyndi á hvort það væri Keflavíkurflugvöllur, og þar með Héraðsdómur Reykjaness, eða sóttvarnahúsið sjálft og þar með Reykjavík. Dómurinn taldi að hið síðarnefnda ætti við og lýstu lögmenn aðila sig því sammála.

Óljóst er hvort úrskurðirnir verði kærðir til Landsréttar enda á fimm daga dvöl þeirra sem létu á málið reyna að renna út á morgun. Af þeim sökum er viðbúið að lögvarðir hagsmunir verði ekki til staðar þegar Landsréttur mun hafa kost á því að taka málin til meðferðar og þeim vísað frá af þeim sökum.