Vinna við markaðsgreiningu Póst- og fjarskipta-stofnunar (PFS) á fjarskiptamarkaði hefur dregist umtalsvert. Slíkar greiningar eru lögum samkvæmt eitt af meginverkefnum stofnunarinnar en óhætt er að segja að oft hafi liðið langur tími milli þess sem slíkar greiningar eru unnar.

Öðru hverju í gegnum árin hefur verið bent á brotalamir í framkvæmd markaðsgreininga hjá PFS. Árið 2007 vann fyrirtækjaráðgjöf PWC til að mynda úttekt á PFS að beiðni samgönguráðuneytisins. Þar segir meðal annars að markaðsgreining sé „eitt brýnasta verkefni PFS þar sem henni er ætlað að skapa eðlilegt umhverfi á fjarskiptamarkaði. Það er verulegt áhyggjuefni hvað verkefni á þessu sviði eru skammt á veg komin.“

Í athugasemdum ESA frá 2014, við áðurnefnda markaðsgreiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang á föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang í heildsölu, er meðal annars bent á hve langur tími líður milli markaðsgreininga PFS á umræddum mörkuðum. Hvað þá markaði varðaði höfðu liðið rúm sex ár frá því að síðasta greining hafði verið unnin. Slík töf „gæti skaðað samkeppni og dregið úr réttaröryggi“. PFS féllst á umræddar athugasemdir ESA og bætti því við að stofnunin hygðist „ljúka endurskoðun á umræddum mörkuðum innan 3ja ára“. Þeirri vinnu er hins vegar enn ekki lokið en samkvæmt heimildum blaðsins hefur sú vinna verið „á lokametrunum“ um alllangt skeið.

„PFS gerir ráð fyrir að innanlandssamráð um markaðsgreiningar á mörkuðum fyrir aðgang að heimtaugum í heildsölu og bitastraumsaðgang í heildsölu hefjist fyrir lok aprílmánaðar 2020,“ segir Hrafnkell Viðar Gíslason, forstjóri PFS, í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins. „Þetta er tímafrek og flókin vinna sem hefur tekið nokkuð lengri tíma en vonir stóðu til, m.a. vegna vinnu við önnur verkefni, aukinnar flækju við verkefnin og forgangsröðunar innan stofnunarinnar.“

Sem fyrr segir hefur lítið birst frá PFS á undanförnum árum og nokkrar greiningarnar komnar nokkuð til ára sinna. Í fyrrgreindri ákvörðun var til að mynda byggt á hlutdeildartölum markaðsaðila frá árinu 2013. Við greiningu á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína, frá árinu 2015, var byggt á tölum ársins 2014 og við greiningu á lúkningarhluta leigulína frá 2014 var byggt á tölum frá 2012. Umræddar greiningar eru enn í fullu gildi.

Þessi dráttur hefur reynt á þolrif fyrirtækja á markaði, þá sérstaklega þeirra sem þurfa að sæta kvöðum. Samkvæmt frumvarpsdrögum að nýjum fjarskiptalögum, sem var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda undir lok síðasta árs, ber PFS að vinna slíkar greiningar á þriggja til sex ára fresti. Í umsögn Sýnar við drögin að mynda að tímarammi PFS til vinnu markaðsgreininga væri of rúmur og að hraði markaðarins kallaði á að greiningar yrðu framkvæmdar með reglulegu og styttra millibili en verið hefur. Í umsögn Símans sagði að borið hefði á því að misbrestir væru í framkvæmd markaðsgreininga og var lögð til breyting á frumvarpinu þess efnis að álagðar kvaðir myndu falla sjálfkrafa úr gildi ef PFS myndi ekki ljúka vinnu innan tilskilinna tímamarka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .