Fjártæknifyrirtækið Meniga tapaði ríflega 4,5 milljónum evra á síðasta rekstrarári sem lauk 31. mars á liðnu ári, en tap félagsins nærri þrefaldaðist milli ára.

Velta samstæðunnar nam 12,5 milljónum evra og dróst saman um 7,6%, á meðan rekstrargjöld jukust um 8% í tæpar 17 milljónir evra.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að þó sala hafi vissulega dregist saman skýrist tapið fyrst og fremst af aukinni fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Þá hafi reglulegar tekjur samstæðunnar vaxið um 3% í um 8 milljónir evra.

Eignir Meniga voru ríflega 31 milljón evra í lok rekstrarárs og jukust þær um 9,5% milli ára. Skuldir jukust um 64,1% og námu ríflega 18 milljónum evra. Eigið fé lækkaði um tæp 25,6% og nam tæplega 13 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar lækkaði því úr 60,8% í 41,3%.

Á meðal dótturfyrirtækja Meniga er Meniga Iceland ehf. en í ársreikningnum kemur fram að íslenska dótturfélagið hafi hagnast um 200 þúsund evrur, samanborið við tæpar 500 þúsund evrur árið áður. Önnur dótturfélög samstæðunnar eru í Svíþjóð, Póllandi og Finnlandi.

Georg Lúðvíksson er forstjóri Meniga og einn stofnenda.