Samþykktar hafa verið nýjar reglur um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga og taka þær gildi 1. nóvember nk. Var þetta samþykkt á stjórnarfundi Persónuverndar fyrir skömmu.

Nýju reglurnar eru talsvert frábrugðnar eldri reglum og má t.d. nefna nýtt ákvæði um svo kallaða svarta lista. Verður framvegis leyfisskylt að færa nafn manns á skrá eftir fyrirfram ákveðnum viðmiðum og miðla upplýsingunum til þriðja aðila í því skyni að neita viðkomandi aðila um ákveðna fyrirgreiðslu eða þjónustu. Gæti það t.d. átt við um lista yfir þá sem eiga langan skuldaferil að baki svo dæmi séu nefnd.

Samkeyrsla gagna framvegis leyfisskyld

Nýju reglurnar kveða einnig á um að framvegis verði erfðarannsóknir ekki lengur háðar leyfi frá Persónuvernd ef upplýst samþykki þátttakenda liggur fyrir eða önnur ótvíræð heimild. Þó verður skylt að senda Persónuvernd tilkynningar um slíkar rannsóknir og að fylgja reglum persónuverndarlaga hvað varðar réttindi þeirra einstaklinga sem unnið er með erfðaefni úr.

Þá stefnir Persónuvernd að setningu almennra reglna um hvernig standi skuli að framkvæmd slíkra rannsókna.

Einnig má nefna að framvegis verður háð leyfi Persónuverndar að samkeyra skrár með viðkvæmum persónuupplýsingum. Slík samkeyrsla hefur ekki verið leyfisskyld til þessa ef sami aðili bar ábyrgð á viðkomandi skrám, en framvegis verður slík samkeyrsla leyfisskyld séu skrárnar miðlægar. Á það m.a. við um skrár sem hafa að geyma upplýsingar um alla einstaklinga hér á landi sem uppfylla ákveðin viðmið, óháð búsetu.