Nýjar reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands  munu taka gildi á morgun en samkvæmt tilkynningu frá Seðlabankanum hefur verið unnið að endurskoðun á reglunum undanfarnar vikur.

„Tilgangur með endurskoðun reglnanna er að skýra betur þá fyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitir fjármálafyrirtækjum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að nýju reglurnar séu í grundvallaratriðum svipaðar og eldri reglur frá því í ágúst í fyrra. Tvær breytingar frá eldri reglum hafi þó verið gerðar sem nauðsynlegt sé að skýra sérstaklega.

Í fyrsta lagi eru settar strangari reglur um þær tryggingar sem eru hæfar í viðskiptum við Seðlabankann. Hæfar tryggingar í viðskiptum við Seðlabanka Íslands eru nú einkum íbúðabréf Íbúðalánasjóðs, ríkisbréf og ríkisvíxlar.

Í öðru lagi eru í nýju reglunum ákvæði sem veita Seðlabankanum víðtækari og skýrari heimildir til stýra lausu fé á markaði.

Skilmálar verða birtir á vefsíðu Seðlabankans og greina þeir nánar frá útfærslu reglnanna.