Corona-bjórinn frá Mexíkó hefur verið með öllu ófáanlegur á Íslandi í sumar. Fram kemur í tilkynningu frá Vífilfelli að félaginu hafi borist margar kvartanir vegna þessa. Skýringin sé glerskortur sem plagaði bjórframleiðandann á fyrri hluta ársins en Corona-bjórinn er víða einungis seldur í glerflöskum, líkt og um er að ræða hér á landi. Þessi vandræði glerbirgja ollu miklum skorti á bjórnum víða um heiminn, sérstaklega í Evrópu með tilheyrandi tekjutapi fyrir dreifingaraðila í álfunni.

Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri hjá Vífilfelli, segir Corona eiga sér tryggan aðdáendahóp hér á landi sem hafi tekið skortinum illa, en segist þó geta róað þá með með því að fyrirtækið sé að fá nýja sendingu.

Að sögn Hreiðars koma reglur ÁTVR hins vegar í veg fyrir að bjórinn fái fulla dreifingu til að byrja með, þar sem vörur sem séu ófáanlegar í ákveðinn tíma detti sjálfkrafa úr vöruvali Vínbúðanna. „Vörurnar þurfa að vinna sér aftur inn sitt pláss í hillunum. Þannig virka bara reglurnar. Við gerum þess vegna ráð fyrir því að það taki töluverðan tíma áður en við fáum fulla dreifingu á Corona aftur. Vínbúðirnar sýndu okkur þó skilning og gáfu okkur smá slaka varðandi hillupláss. Við þurftum samt að sækja aftur um reynslusölu fyrir Corona og það er hætt við því að aðdáendur þurfi að fara á fleiri en einn stað til að finna hann til að byrja með. Hann fer bara í fjórar búðir á meðan hann er á reynslu hjá ÁTVR eða Kringluna, Heiðrúnu, Skútuvog og Hafnarfjörð.“