Nýjar reglur um hámarksgreiðslubyrði og veðrými sníða lánastofnunum þröngan stakk, en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að reglurnar séu meðal annars settar til hindra undarlegar lánveitingar.

„Lánamarkaðir eru svolítið sérstakir markaðir, það er oft þannig að þeir sem eru að borga hæstu vextina eru þeir sem eru að taka mesta áhættu. Við viljum sjá samkeppni í vaxtakjörum, en ekki sjá samkeppni í greiðslumati, þar sem bankarnir keppast um að lána með sem minnstum kröfum svo sem varðandi eigið fé og greiðslumat. Þannig samkeppni er hættuleg.

Fyrir breytingar var hámarks veðhlutfall hjá fyrstu kaupendum 90% samkvæmt reglum Seðlabankans, hins vegar var Íslandsbanki sá eini sem bauð upp á svo há lán og þá að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. „Bankarnir hafa fram til þess hegðað sér með tiltölulega skynsömum hætti. Ég held að þeir séu að vinna útlánamatið vel almennt séð. Þessar reglur eiga hins vegar við alla aðila, alla lánveitendur, líka lífeyrissjóði og aðra aðila sem gætu komið inn á markaðinn. Þessar reglur gilda svo líka ef t.d. verktakar eða aðrir myndu bjóða upp á „top-up“ lán á undarlegum kjörum. Þessar reglur eru til dæmis settar til að hindra það.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.