Regluverk og eftirlit með fjármálafyrirtækjum koma aldrei í stað ábyrgra og góðra stjórnarhátta, að mati Friðriks Sophussonar, stjórnarformanns Íslandsbanka. Í ræðu sinni á aðalfundi bankans í dag fjallaði Friðrik um hertar kröfur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja til eftirlitsaðila og sagði skiljanlegt að regluverk fjármálamarkaðar hafi farið í gegnum endurskoðun í kjölfar fjármálakreppunnar. Hann sagði aftur á móti að mestu skipti að stjórnvöld og eftirlitsaðilar hefðu í huga að regluverk og eftirlit kæmi aldrei í stað ábyrgra og góðra stjórnarhátta. Virkasta leiðin til þess að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri fjármálafyrirtækja væri að tryggja sjálfsábyrgð fyrirtækjanna, stjórnenda þeirra og eigenda.

Þá kom fram í máli stjórnarformannsins að eignarhald bankans hafi haldist óbreytt frá því í október 2009 og að á þeim tíma hafi þeim aldrei verið greiddur arður. Á sama tíma hafi bankinn lagt um 23 milljarða til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Stjórnin hafi því ákveðið að leggja til við aðalfund að greiddur yrði hóflegur arður til eigenda eða samtals um þrír milljarðar króna og að arðurinn skyldi greiddur í íslenskum krónum. Friðrik sagði þessa ákvörðun endurspegla að rekstargrundvöllur bankans væri kominn í ákveðið jafnvægi og útgreiðsla lágmarksarðs því eðlileg að mati stjórnar.

Friðrik vék máli sínu að eignarhaldi bankans og sagði ljóst að núverandi eigendur ætli sér ekki að eiga hann til framtíðar. Hann sagði mestu máli skipta fyrir viðskiptamenn, starfsmenn og samfélagið að Íslandsbanki verði í eigu einkaaðila, innlendra eða erlendra, sem ætla sér að stunda fjármálastarfsemi til framtíðar og hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þannig geti bankinn best rækt skyldur sínar við viðskiptavini, atvinnulíf og samfélagið í heild.