Regus á Íslandi hefur fengið nýjar skrifstofur til útleigu á 17. hæð Höfðatorgs. Skrifstofuhótelið í Höfðatúni er það fimmta sem Regus opnar hér á Íslandi á þremur árum en fyrir eru starfsstöðvar í Ármúla, Tryggvagötu, Skútuvogi og Skipagötu á Akureyri.

„Höfðatorgið er kærkomin viðbót við það net sveigjanlegra vinnurýma sem við erum að byggja upp og við erum virkilega stolt af þessari glæsilegu aðstöðu sem við getum nú boðið uppá í þessum turni sem gnæfir yfir miðborginni,“ segir Tómas Ragnarz, framkvæmdastjóri Orange Project og Regus á Íslandi í fréttatilkynningu.

„Borgartúnið hefur á síðustu árum fest sig rækilega í sessi sem miðpunktur viðskipta og stjórnsýslu á Íslandi og okkur finnst frábært að geta boðið viðskiptavinum okkar tækifæri til þess að koma sér vel fyrir í þessari hringiðu atvinnulífsins. Með þessari starfsstöð gefst smærri fyrirtækjum til dæmis einstakt tækifæri til þess að hasla sér völl í þessari glæsibyggingu, án þess að þurfa að festa sér heila hæð," segir Tómas.

Þegar er byrjað að taka á móti pöntunum en allir viðskiptavinir Regus hafa aðgang að vinnuaðstöðu og fundarherbergjum í öllum starfsstöðvum fyrirtækisins óháð því hvar fastastarfsemi þeirra er. Þannig geta leigjendur á Höfðatorgi haldið fundi eða komið við þegar þeim hentar á Akureyri eða í Tryggvagötu.