Forsvarsmenn Geysis Green Energy (GGE) og Reykjavík Energy Invest (REI), dóttufélags Orkuveitu Reykjavíkur, eiga nú í viðræðum um framtíð Enex. GGE á 73,1% í Enex og REI á 26,5%. Aðrir eiga minna.

GGE hefur lýst yfir áhuga á því að Enex verði sameinað GGE en REI hefur ekki verið tilbúið til þess.

„Okkur hefur ekki hugnast það,“ segir Hjörleifur Kvaran, starfandi forstjóri REI. „Verði Enex látið renna inn í Geysi verður eignarhlutur okkar þar mjög óverulegur, væntanlega innan við fimm prósent, því fylgja engin áhrif og þar með er enginn áhugi á slíkri leið.“

Hann segir að OR sé meðal stofnenda Enex „og við höfum ekki tekið ákvörðun um að fara út, hvað sem síðar verður.“

Hjörleifur segir að forsvarsmenn félaganna séu því að ræða í fullu bróðerni hvaða aðrar leiðir komi til greina.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, tekur undir það.

„Við erum sameiginlega að leita lausna á þessu máli,“ segir hann. Ekki sé því rétt, eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær, að GGE væri enn að bíða eftir viðbrögðum frá REI. Viðræður aðila séu þvert á móti hafnar.

„Við erum að finna flöt á því sem getur verið farsælt til framtíðar fyrir félagið og eigendur þess.

Leggja þarf meira fé inn í félagið

Þegar Hjörleifur er spurður út í stöðu Enex segir hann að leggja þurfi meira fé inn í félagið til að hægt sé að halda áfram þeim verkefnum sem þegar eru komin af stað.

Hann bendir hins vegar á að það sama eigi við um Enex og önnur fyrirtæki um þessar mundir: Erfitt sé að sækja sér fjármagn á markaði.

Hann leggur áherslu á að Enex eigi framtíðina fyrir sér, það sé í mörgum spennandi verkefnum. Enex á 33% hlut í Enex Kína ehf., 100% í Enex Power Germany GmbH og 71% í Iceland America Energy INC.