Heildarhagnaður þriggja stærstu við­ skiptabanka landsins, Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka, nam 42,5 milljörðum á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Er þetta þó nokkuð minni hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam tæpum 51 milljarði. Eini bankinn sem hagnaðist meira í ár en í fyrra er Arion banki en hagnaður bankans jókst um 11% frá því á sama tíma í fyrra. Ástæðan fyrir hagnaðarsamdrætti bankanna milli ára er fyrst og fremst sú að einskiptisliðir á borð við virðisbreytingu útlána og sala eigna úr óskyldum rekstri vega ekki jafn þungt í rekstri bankans á þessu ári. Ljóst er að bankarnir munu allir þurfa að reiða á grunnrekstur sinn á næstu misserum en umtalsverð vinna við hagræðingu og öflun nýrra viðskipta er hafin hjá þeim öllum.

Ef litið er til Landsbankans nam virðisbreyting útlána á fyrsta helmingi þessa árs um 1,845 milljörðum króna en sá liður nam 11,5 milljörðum króna á sama tíma í fyrra eða um 84% meira en í ár. Hjá Íslandsbanka nam hagnaður af afleiddri starfsemi um 924 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs en nam um 4,259 milljörðum á sama tíma í fyrra. Hjá Arion nam hagnaður af afleiddri starfsemi um 10,6 millj­ örðum króna en þar vegur söluhagnaður og hækkun verðmats á eignarhlutum bankans í Reitum og Refresco Gerber í skráningum félaganna á markað þungt.

Engin ein leið er til að reikna út hver nákvæmur hagnaður af reglulegri starfsemi bankanna er enda engin föst skilgreining á því hvað telst vera „regluleg starfsemi“ banka. Það sem er í grófum dráttum átt við er hagnaður bankans af starfsemi sem lýtur ekki að endurskipulagningu vegna efnahagshrunsins en það er t.a.m. vegna virðisbreytingar útlána og sala á eignum sem bankarnir tóku yfir í kjölfar hruns. Hagnaður af reglulegri starfsemi Landsbankans að frádregnum virðisbreytingum útlána á fyrri helmingi þessa árs nemur samkvæmt þessu 11,04 milljörðum króna og ef tekið er tillit til virðisbreytingar og sölu eigna óskyldum rekstri Íslandsbanka þá er hagnaður hans af reglulegri starfsemi um 8,2 milljarðar króna á fyrir helmingi þessa árs. Hagnaður Arion af grunnrekstri nam 8,7 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Að sögn bankastjóra allra þriggja bankanna hafa þeir verið vel búnir undir að reiða á grunnrekstur sinn og munu mæta honum annars vegar með frekari hagræðingu og hins vegar með auknum viðskiptum.

VB Sjónvarp náði tali af bankastjórum Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka eftir að uppgjör bankanna voru kynnt. Hægt er að sjá myndböndin með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan:

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans .

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka .

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .