*

þriðjudagur, 28. september 2021
Erlent 6. nóvember 2020 12:38

Reiða sig meira á neyslu Kínverja

Sala bílaframleiðandans Ford á þriðja ársfjórðungi dróst saman um fimm prósent á alþjóðavísu en jókst um 22% í Kína á sama tíma.

Ritstjórn
Sjanghæ, Kína.

Bandarísk fyrirtæki á borð við Coca Cola, General Motors og Estée Lauder hafa upplifað aukna sölu á þriðja ársfjórðungi frá Kínverskum neytendum. Bandarísk fyrirtæki, sum hver, treysta um þessar mundir að meira leiti á sölu til kínverskra neytenda þar sem efnahagsbati í kjölfar Covid-19 er að nást talsvert hraðar þar en vestanhafs, sem og í Evrópu.

Heildarsala snyrtiframleiðandans Estée Lauder dróst saman um níu prósent á þriðja ársfjórðungi milli ára. Hins vegar jókst sala félagsins í Kína um 28%-30%. Umfjöllun á vef WSJ.

Á marga vegu hefur neysla í Kína hefur náð sama stað og fyrir áhrif veirufaraldursins. Ræktir, veitingastaðir og bíósalir eru opnir á sama tíma og hertar sóttvarnaraðgerðir taka gildi víðsvegar í Evrópu. Smásala í Kína hefur verið að aukast milli ára. Í ágúst jókst hún um 0,5% milli ára en um 3,3% milli ára í septembermánuði.

Gosframleiðandinn Coca-Cola gerir ráð fyrir að sala félagsins aukist á þessu ári í Kína, samanborið við fyrra ár. Hins vegar er áætlað að sala félagsins á alþjóðavísu dragist saman. Heildarsala Coca-Cola á þriðja ársfjórðungi dróst saman um níu prósent milli ára.

Sala General Motors jókst um 12% milli ára á þriðja ársfjórðungi 2020 í Kína. Salan dróst saman um tíu prósent milli ára í Bandaríkjunum á sama tímabili. Sala Ford jókst um 22% milli ára í Kína en dróst saman um fimm prósent á alþjóðavísu.