Amazon gaf frá sér nokkur harðskeytt tíst í átt að Bernie Sanders og Elizabeth Warren um helgina. Ástæða færslnanna ku vera óánægja Jeff Bezos, stofnanda netrisans, um að stjórnendur fyrirtækisins svöruðu ekki nógu ákveðið gagnrýnisröddum sem hann telur rangar og ónákvæmar, samkvæmt heimildum Vox .

Tístin koma á sama tíma og ein stærsta verkalýðskosning í sögu fyrirtækisins fer fram í vöruhúsi í Bessemer í Alabama fylkinu. Niðurstaða kosninganna kemur í ljós síðar í vikunni en stjórn fyrirtækisins telur að að ef þessi starfshópur ákveður að stofna verkalýðsfélag, þá gæti það komið af stað keðjuverkun.

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders ákvað að heimsækja starfsmennina í Bessemer á lokadögum kosninganna. Fyrir komuna tístaði hann:

„Það eina sem ég vil vita er af hverju ríkasti maður heims, Jeff Bezos, er að eyða milljónum í að koma í veg fyrir að verkamenn stofni verkalýðsfélag svo að þeir geti samið um betri laun, fríðindi og vinnuaðstæður.“

Dave Clark, háttsettur stjórnandi hjá Amazon, óskaði Sanders velkominn til Birmingham borgar í Alabama fylki. Hann sagðist oft kalla fyrirtækið Bernie Sanders vinnuveitenda en hins vegar, ólíkt Sanders, skapi fyrirtækið framsækinn vinnustað.

„Það eina sem við viljum vita er af hverju öldungadeildarþingmaðurinn er einn af valdamestu stjórnmálamönnum í Vermont ríki en lágmarkslaun þar eru ENNÞÁ bara 11,75 dalir [á klukkustund]. Lágmarkslaun Amazon eru 15 dalir auk frábærrar heilbrigðistrygginga frá degi eitt. Öldungadeildarþingmaðurinn ætti að spara fingraburðar fyrirlestur sinn þar til að hann stendur við sitt í eigin bakgarði,“ skrifar Clark á Twitter .

Hótar að skipta upp stóru tæknifyrirtækjunum til að koma í veg fyrir hrokafull tíst

Nokkrum klukkutímum síðar svaraði Amazon News, Twitter aðgangur á vegum Amazon, ásökunum Mark Pocan, þingmanni Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um að bílstjórar fyrirtækisins væru neyddir til að míga í vatnsflöskur. „Þú trúir þessu ekki í raun með þvagið í flöskunum? Ef það væri satt, þá myndi enginn vinna fyrir okkur,“ segir í svari Amazon.

Þá fór Amazon, fjórða stærsta fyrirtæki heims, á eftir öldungadeildarþingmanninum Elizabeth Warren í röð færslna á laugardaginn. Hún hafði sakað fyrirtækið um að nýta sér skattasmugur og -skjól til þess að greiða nær enga skatta.

„Þú býrð til skattalögin, við einungis fylgjum þeim. Ef þér líkar ekki lögin sem þú hefur búið til, þá fyrir alla muni, breyttu þeim,“

„Bandaríkjaþing hannar skattalög til að hvetja til fjárfestinga í hagkerfinu. Hvað höfum við gert í því? 350 milljarðar dala í fjárfestingar síðan 2010 og 400 þúsund ný störf í Bandaríkjunum á einungis síðasta ári. Og á meðan þú vinnur að breytingum á skattakerfinu, getum við vinsamlegast hækkað alríkislágmarkslaun í 15 dali?,“ tístaði Amazon News .

Í svari Warren segist hún ekki hanna skattasmugur heldur væri það her lögfræðinga og þrýstihópa (e. lobbyists) á vegum Amazon. Hun ætli jafnframt að berjast fyrir því að skipta stóru tæknifyrirtækjunum upp „svo að þú sért ekki nógu valdamikill til að hrella öldungadeildarþingmenn með hrokafullum tístum“.

„Þetta er stórfurðulegt og segir sitt. Einn af valdamestu stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum segir hér að hún ætli að brjóta upp bandarískt fyrirtæki svo það geti ekki gagnrýnt hana lengur,“ segir í færslu Amazon.