Átján prósent Íslendinga telja siga hafa komið verr út út kreppunni en aðrir samkvæmt  rannsókn Jóns Gunnars Bernburg, prófessors við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Þessi átján prósent upplifa óréttlæti og eru reiðari en aðrir. Greint er frá rannsókninni á ruv.is.

Samkvæmt rannsókninni telja tæplega tveir þriðju úrtaksins að lífskjör sín hafi versnað í kreppunni en um sjö prósent telja að þau hafi batnað.

"Það eru 18% sem telja að kreppan hafi haft verri áhrif á fjárhag þeirra heldur en annarra Íslendinga," segir Jón Gunnar í samtali við Ríkisútvarpið og bætir við að þessi hópur fólks upplifi "stöðu sína í samfélaginu sem mjög óréttláta. Þetta er fólk sem hefur til dæmis misst sparnað sinn í bönkunum á sínum tíma, það voru margir sem það gerðu, fólk sem brann inni með óseldar eignir, það var svo margvíslegt sem gat gerst á þessum tíma."