Svokölluð Fintech fyrirtæki má skilgreina í stuttu máli sem fyrirtæki sem nota tækni til að bjóða upp á fjármálaþjónustu á skilvirkari hátt en áður. Hér á Íslandi hafa sprottið upp fjölmörg áhugaverð fyrirtæki á síðustu árum sem flokka má sem Fintech fyrirtæki. Á meðal þeirra eru fyrirtæki á borð við Meniga, Netgíro, Aur og Kass og eru þau þegar farin að hafa þónokkur áhrif á daglegt líf Íslendinga.

Tvöföldun á milli ára

Þótt þessi geiri hafi ekki verið langlífur á heimsvísu þá hefur hann vaxið ansi hratt og þá sérstaklega á síðustu tveimur árum. Samkvæmt nýlegri skýrslu frá endurskoðendafyrirtækinu KPMG voru fjárfestingar í Fintech fyrirtækjum rúmlega tvöfalt hærri árið 2015 heldur en árið 2014.

Fjárfest var í slíkum fyrirtækjum fyrir um 6,7 milljarða dollara árið 2014 en árið 2015 námu fjárfestingar í þeim geira 13,8 milljörðum dollara eða 1.713 milljörðum íslenskra króna. Til frekara marks um hversu ör þróunin hefur verið þá segir í sömu skýrslu að á árunum 2011 til 2013 voru fjárfestingar fyrir meira en 50 milljónir dollara færri en fimmtán en aðeins á árinu 2015 voru þær sextíu talsins.

Nánar er fjallað um málið í Sprotum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .