Í dag kom út nýtt rit á vegum Seðlabanka Íslands sem ber heitið Fjármálainnviðir. Í ritinu er fjallað um virkni, hagkvæmni og öryggi fjármálainnviða á Íslandi.

Seðlar og mynt í umferð hefur verið um 60 milljarðar króna samkvæmt ritinu. Ef seðlum í umferð væri dreift jafnt á alla Íslendinga kæmu um 180 þúsund krónur í hlut hvers og eins en ef sama væri gert með mynt í umferð væri hlutur hvers um 11 þúsund krónur.

Reiðufjárnotkun íslendinga er ennþá með því minnsta sem þekkist í heiminum þó svo að fjárhæð af seðlum og mynt í umferð hafi vaxið nokkuð af nafnvirði. Fram kemur að reiðufé í umferð hafi aukist að nafnvirði um 10% undanfarna tólf mánuði. Einnig er nefnt að hlutfall reiðufjár af vergri landsframleiðslu hafi um árabil verið um það bil eitt prósent en frá 2010 hafi það hækkað í 2,1-2,4%. Til samanburðar er hlutfallið 11% víða á evrusvæðinu.

Fram kemur að erfitt sé að henda reiður á hversu mikið af því reiðufé sem er í umferð hjá íslendingum sé notað til viðskipta og hve mikið liggi óhreyft hjá eigendum. Einnig þykir sennilegt að nokkurt magn af íslenskri mynt hafi týnst.