HS Orka tilkynnti nýlega að fyrirtækið hefði ráð- ið til sín Finn Beck sem lögfræðing þess. Finnur hóf lögfræðinám samhliða vinnu árið 2005 en hann hafði útskrifast með BA gráðu í stjórnmálafræði árið 1995. Náminu lauk hann árið 2010 en hann segir að það sem hafi á endanum dregið hann í lögfræðina var hversu oft hann þurfti að leita til lögfræðinga í starfi sínu sem fréttamaður til að öðlast skilning á umfjöllunarefni sínu.

„Ég fjallaði mikið um dómsmál og sakamál en það reyndi á lögfræði í næstum öllu því sem ég var að fjalla um. Upphaflega hugmyndin mín var að auka möguleika mína til að vinna sjálfstætt sem blaðamaður og auka við menntun mína þannig,“ segir Finnur sem á endanum sagði skilið við heim fjölmiðlanna til að starfa sem lögfræðingur.

Tók upp plötu

Finnur er kvæntur Maríu Hrund Marinósdóttur, markaðsstjóra hjá VÍS, og saman eiga þau þrjú börn. Utan vinnu eyðir Finnur mestum tíma sínum í því að sinna tónlist og útivist. Nýlega lauk hann við að taka upp plötu ásamt æskuvinum sínum þar sem hann spilaði á bassa.

„Við vorum saman í hljómsveit frá því við vorum ellefu ára og tveir þeirra eru núna atvinnumenn í tónlist en ég hef ekki verið í hljómsveit síðan. Þeir eru Haraldur Vignir Sveinbjörnsson og Hannes Friðbjörnsson. Halli fékk mig til liðs við sig til að gera þessa plötu, þannig að ég þurfti að rífa upp bassann. Síðasta árið er ég búinn að vera að lyfta mig upp til að halda í við þessa atvinnumenn,“ segir Finnur en platan kallast Shine og hægt er að nálgast hana á Spotify.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .