Reikigjöld á farsímaþjónustu (e. data roaming) munu falla niður í Evrópu á næstkomandi fimmtudag. Mun reglugerð þess efnis einnig taka gildi hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Hrafnkeli Viðari Gíslasyni forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunnar. Þetta kemur fram í frétt Vísis. Reglugerðin var staðfest af ráðherra í dag og tekur gildi þegar hún hefur verið birt í Stjórnartíðindum.

Samkvæmt þessu ættu íslensk símafyrirtæki að fella niður reikigjöldin strax á fimmtudag. Munu öll íslensku símafyrirtækin vera undirbúin undir breytingarnar og tilbúin með nýja verðskrá sem tekur mið af breytingunum.

Þegar reglugerðin tekur gildi eiga ferðamenn í ríkjum Evrópusambandsins að geta notað internetið í farsímum sínum án þess að vera rukkaðir sérstaklega fyrir það. Í reglugerðinni er þó að finna heimild sem fjarskiptafyrirtæki geta nýtt sér til að takmarka hversu hátt hlutfall gagnamagns í áskrift viðskiptavinir þeirra geta notað á ferðalagi innan ESB.