Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist finna fyrir miklum áhuga fjárfesta á hlutafjárútboði félagsins í aðdraganda skráningar á First North markaðinn.

„Síðustu vikur höfum við verið í „roadshow" kynningum fyrir marga af stærstu fjárfestum landsins, sjóðum og öðrum, og höfum fundið gríðarlega mikinn áhuga og meðbyr bæði í því ferli og ekki síður í miðasölunni sjálfri. Þannig að viðtökurnar við Play hafa verið rosalega góðar," segir Birgir.

Eftirspurn eftir tækifærum í ferðaþjónustu

Hann telur mikla eftirspurn hjá fjárfestum eftir fjárfestingartækifærum í ferðaþjónustu um þessar mundir. „Ferðaþjónustan er á leiðinni inn í uppgangstímabil en það eru fá félög í þeim geira skráð á markað. Það er líka stór ástæða fyrir þessari skráningu okkar, við erum í sjálfu sér fullfjármögnuð þannig að skráningin er ekki síst til þess að mæta þessum áhuga."

Fyrsta vél Play kemur til landsins á morgun, sú næsta um komandi mánaðamót og sú þriðja er áætluð síðari hluta júlí. „Þetta er í góðum takti við þá rólegu byrjun sem við höfum ætlað okkur. Þó svo að fyrsta flugið sé núna í næstu viku þá byrjum við rólega inn í júlí og í raun og veru inn í ágúst, þangað til við verðum komin inn í alvöru prógram," segir Birgir.

Þá komi sér vel að greiða aðeins klukkutímagjald af vélunum fram að áramótum. „Við erum bæði með þetta klukkutímagjald og á 25% lægri leigukjörum til næstu 10 ára. Við erum að nýta okkur þann fjárhagslega styrk sem við höfum eftir útboðið í apríl til þess að berja niður kjör. Fólk er að átta sig á því að þetta er alvöru flugfélag með sterka fjármögnun og þá fara kjörin að endurspegla það."

Engin bjartsýnisspá

Fjárfestakynning vegna komandi útboðs var birt í dag og segir Birgir þá rekstrarsviðsmynd sem þar er kynnt enga bjartsýnisspá.

„Þessi sviðsmynd sýnir hvernig við sjáum þetta fyrir okkur en umhverfið getur auðvitað breyst hratt. Það er ekki verið að ofmeta tekjurnar eða neitt svoleiðis, það á engin heilladís að koma og blessa þetta. Við erum ekki að gera ráð fyrir því að hlutirnir falli alveg með okkur, við gerum til dæmis ráð fyrir mjög háu olíuverði í sviðsmyndinni, hæsta meðalverði á síðustu fimm árum. Við gerum ráð fyrir að næstu flugvélar okkar verði markaðskjörum þrátt fyrir að vera það langt komin með samninga að við vitum að við verðum með betri kjör en það. Fyrst og fremst erum við að fara raunhæfa leið í rekstrinum með því að byggja okkur hægt upp. Við gætum farið hraðar, en sterk fjármögnun okkar leyfir okkur að horfa til lengri tíma."

Mikill alþjóðlegur áhugi

Birgir segir áhuga viðskiptapressunnar ytra á Play vera mikinn en talsvert hefur verið fjallað um hið nýstofnaða flugfélag í erlendum fjölmiðlum. Síðar í mánuðinum verður Birgir til viðtals á netfundi (e. webinar) eins særsta flugfréttamiðils heims, Simple Flying, ásamt Nino Singh Judge, forstjóra nýja flugfélagsins Flypop, þar sem nýstárleg nálgun flugfélaganna verður meðal annars til umræðu.

„Við Nino vorum saman í panel umræðum á flugráðstefnu um daginn, ásamt forstjórum fleiri nýrra flugfélaga, þar sem „startup" flugfélög voru til umræðu. Simple Flying hafði samband við okkur Nino eftir það, en fólki finnst það merkilegt að vera að hefja flugrekstur á þessum tímum. Flypop ætlar að einblína á Breta af indverskum uppruna sem fljúga á milli Indlands og Bretlands en nálgun þeirra er þó svipuð okkar að því leyti að þeir ætla að nálgast þetta skynsamlega, byggt á rekstri, en ekki þessum týpíska „top-line" hugsunarhætti flugfélaga, þar sem fókusinn er alltaf á fjölda flugvéla, fjölda farþega og þess háttar. Við erum að nálgast þetta mun fókuserað og ég held að fólk sé að átta sig á því að þetta sé svolítið ný nálgun."

Fundurinn með Birgi og Nino verður sá þriðji sem Simple Flying stendur fyrir. Fyrsti viðmælandi miðilsins var Sir Tom Clark, forstjóri Emirates, og á síðasta fundi var rætt við Akbar Al Baker, forstjóra Qatar Airlines.