Ætla má að störfum muni fækka fjórða mánuðinn í röð í Bandaríkjunum. Mikill samdráttur í gerð nýbygginga sem og einkaneyslu. Þetta segja sérfræðingar Bloomberg.

Samkvæmt miðgildisspá Bloomberg mun störfum fækka um 78,000 í apríl, en vinnumálaráðuneytið mun birta tölur um atvinnuleysi á föstudaginn næstkomandi. Jafnframt verða birtar tölur um hagvöxt á fyrsta fjórðungi í Bandaríkjunum á miðvikudag. Spár gera ráð fyrir allt niður í 0,4% vexti á fjórðungnum, sem yrði þá minnsti hagvöxtur þar í landi í fimm ár.

Aðalhagfræðingur Lehman Brothers, Ethan Harris, segir í samtali við Bloomberg að bandaríska hagkerfið sé nú opinberlega komið inn í samdráttarskeið. Harris reiknar jafnframt með að efnahagslífið muni haldast veikt út árið 2009, og að hagvöxtur verði 0,7% á fyrstu þremur mánuðum ársins.