Tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi  (FSCS) hefur þurft að greiða út 508 milljónir punda, um 104 milljarða króna, til þeirra sem áttu innstæður í Heritable bankanum þar í landi.

Heritable var dótturbanki Landsbanka Íslands en var tekinn yfir af breska fjármálaeftirlitinu 7. október 2008. Þá voru 22.344 reikningar færðir frá bankanum til hollenska bankans ING Direct og lagði FSCS út 500 milljónir punda, 102 milljarða króna, til að standa undir þeirri tilfærslur.

Alls voru 422 reikningar ekki færðir yfir og uppgjör vegna þeirra hefur kostað 8,1 milljón pund, um 1,7 milljarð króna til viðbótar.

Til að standa straum af þessum kostnaði fékk tryggingasjóðurinn lán hjá ríkissjóði Bretlands. Þegar hafa fengist tæplega 17 milljarðar króna upp í kröfurnar vegna eigna Heritable og reiknað er með að 70 til 80 prósent endurheimt verði allt í allt. Því mun FSCS bera allt að 20 milljarða króna kostnað vegna þessa þegar yfir lýkur.