Gert er ráð fyrir því að rekstrarniður samstæðu borgarinnar verði jákvæð um 8,1 milljarð króna á næsta ári. Búist er við að A-hluti rekstrarreikning verði jákvæður um 720 milljónir á þessu ári og 495 milljónir á næsta ári. Fram kemur í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár og fimm ára áætlun fram til ársins 2018 sem lagt var fyrir í borgarstjórn í dag að unnið sé hörðum höndum að því að greiða niður skuldir samstæðunnar, A- og B-hluta, en þar eru skuldir Orkuveitu Reykjavíkur fyrirferðarmestar.

Gert er ráð fyrir því að skuldsetningarhlutfall borgarinnar lækki úr 179% í 161% á milli áranna 2013 og 2014.

Fram kemur í fjárhagsáætluninni að á næsta ári sé áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði 18,5 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að samstæðan greiði niður 23,4 milljarða króna af skuldum á næsta ári en á þessu ári nema greiðslur langtímaskulda rúmum 29 milljörðum.

Þá kemur fram í fjárhagsáætlun borgarinnar að gjaldskrár Reykjavíkurborgar hækki á bilinu 3,4%-5,7%.

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir samstæðuna er áfram gert ráð fyrir mikill niðurgreiðslu skulda en haldið verður áfram að greiða niður langtímaskuldir Orkuveitunnar í samræmi við Planið.  Vegna þeirrar niðurgreiðslu munu fjármagnsgjöld snarlækka á tímabilinu og er þar um mikinn viðsnúning að ræða. Gert er ráð fyrir að afborganir langtímalána nemi um 108 milljörðum á tímabilinu.