Play reiknar með að að vera með sex farþegaþotur í notkun á næsta ári en félagið hefur nú þegar tryggt sér þrjár þotur að gerðinni Airbus A321neo á langtímaleigu. Félagið býst við því að vera komið með fimmtán flugvélar í notkun árið 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Arctica Finance sem er umsjónaraðili útboðsins.

Félagið reiknar með að velta félagsins verði um 25 milljónir dollara á þessu ári, um þrír milljarðar, og að hún muni síðan vaxa í veldisvexti samhliða auknu umfangi félagsins og verða orðinn 170 milljónir dollarar á næsta ári og 509 milljónir dollarar árið 2025, eða ríflega 60 milljarðar króna.

Búist er við að tap af rekstrinum á þessu ári verði um fimmtán milljónir dollara á árinu, um 1,8 milljarðar króna, en hagnaði í kjölfarið fyrir um fjórar milljónir dollara á næsta ári. Þá er búist við hagnaði fyrir um 43 milljónir dollara árið 2025 sem samsvarar ríflega fimm milljörðum króna.

Reiknað er með því að sætanotkun verði tæp 72% á árinu en að hún verði orðinn 85% á því næsta og 89% árið 2025. Fjöldi starfsmanna á þessu ári verða um 126 manns, og búist er við því fjöldi starfsmanna verði orðinn um þrjú hundruð á næsta ári og rúmlega sjö hundruð árið 2025.

Þá gerir félagið ráð fyrir að flytja 143 þúsund farþega á þessu ári, 865 þúsund á því næsta sem hækki svo upp í nær 2,7 milljónir farþega árið 2025. Til samanburðar flutti Wow air 3,5 milljónir farþega þegar mest var árið 2018.

Í viðskiptaáætluninni er gert ráð fyrir að áætlunarflug til Norður-Ameríku hefjist í apríl á næsta ári.

Áætlaðar rekstrartölur félagsins í ár og til ársins 2025.