Vona er á mörgum og þungum málum frá embætti sérstaks saksóknara til dómstóla. Af þeim sökum m.a. er enn mikið álag á héraðsdómstólum landsins, sérstaklega Héraðsdómi Reykjavíkur, og því nauðsynlegt að bregðast við og fækka dómurum ekki. Þeir eru nú 43. Dómarar við héraðsdóm voru áður 38 en var þeim fjölgað um fimm árið 2009 vegna álags á dómstóla í kjölfar bankahrunsins.

Frumvarp þessa efnis að fækka dómurum ekki um næstu áramót heldur hafa áfram 43 dómara við héraðsdómstóla í eitt ár til viðbótar var lagt fram á Alþingi í gær. Í greinargerð með frumvarpinu eru reifaðar ástæður þess að hafa þurfi áfram 43 dómara við dómstólana.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti drög að frumvarpinu á ríkisstjórnarfundi í byrjun mánaðar. Hún sagði í samtali við VB.is í tengslum við það enn talin þörf á að hafa svo marga héraðsdómara til að tryggja góðan málsmeðferðarhraða fyrir dómstólum og að gert sé ráð fyrir því í fjárlögum.

Hún sagði málið verða skoðað að ári:

„Ég þori ekki alveg að fullyrða að staðan verði orðin þannig að þá hægt verði að hafa 38 héraðsdómara. Það verður að koma í ljós," sagði hún.