Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 1% við næstu vaxtaákvörðun í næstu viku, nánar til tekið þann 18. nóvember nk. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildarinnar.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hafi lækkað vexti fjórum sinnum á þessu ári, alls um tvö prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, séu nú 1% og hafi aldrei verið lægri.

„Samfara vaxtaákvörðuninni koma út Peningamál með nýrri verðbólgu- og þjóðhagsspá. Gengi krónunnar er á svipuðum stað og það var í ágúst þegar síðasta verðbólguspá Seðlabankans leit dagsins ljós. Af þeim sökum er ólíklegt að verðbólguspá bankans muni breytast mikið," segir í Hagsjánni.

Þá segir jafnframt í Hagsjánni að í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar hafi komið fram að áhrif aðgerða Seðlabankans á vormánuðum, þar á meðal lækkun vaxta, eigi enn eftir að koma fram að fullu. Þó enn sé nokkurt svigrúm til frekari vaxtalækkana hafi veiking krónunnar og aukning verðbólgu síðustu mánuði dregið verulega úr líkum á frekari vaxtalækkunum.