Gert er ráð fyrir að þýska fisksölu- og framleiðslufyrirtækið Leuchtturm Beteiligungs - und Holding Germany og dótturfélög þess velti rúmum 100 milljónum evra, jafnvirði 16,7 milljarða króna, á næsta ári. Finnbogi Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Icelandic Group, Ingvar Eyfjörð, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Icelandic Group, og aðrir stjórnendur sem áður unnu með þeim hjá Pickenpack í Þýskalandi, eiga 40% hlut í fyrirtækinu á móti japanska sjávarútvegsrisanum Nippon Suisan.

Fram kemur í netútgáfu IntraFish um fyrirtækjareksturinn í Þýskalandi að verksmiðjan sem er í bænum Riepe suður af Hamborg, hafi verið sett í gang í byrjun mars og sé hún búin nýjustu tækjum til fiskvinnslu og framleiðslu á matvælum úr fiski, svo sem fiskstauta. Nippon Suisan, sem er með rekstur víða um heim, sér fyrirtækinu í Þýskalandi fyrir hráefni, s.s. Alaskaufsa. Á meðal helstu viðskiptavina Leuchtturn Beteiligungs - und Holding Germany eru nokkrar af stórum verslanakeðjum Þýskalands.

Arion lánaði á fimmta milljarð

Greint var frá því í gær að Arion banki hafi lánað fyrirtæki Finnboga og samstarfsmanna hans til uppbyggingar verksmiðjunnar auk afurðaláns sem eigi að mæta sveiflum í rekstri. Finnbogi sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær eiginfjárgrunn fyrirtækisins traustan. Hvorki hann né Arion banki vildu gefa upp um fjárhæð lánsins.

Samkvæmt heimildum IntraFish nam lánveiting Arion banka 28 milljónum evra, jafnvirði 4,7 milljarða króna.