Líkur voru á því að fylgi við flokka myndi dreifast í Hafnarfirði nú eins og það gerði í öðrum sveitarfélögum fyrir fjórum árum. Þetta segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Flokkurinn fékk rúm 20% atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag og missti tvo af fimm bæjarfulltrúum.

Gunnar segir í málgagni flokksins í Hafnarfirði, Bærinn okkar , að hann hafi reiknað með því að stuðningur við flokka sem eru á miðju og til vinstri myndi dreifast á fleiri framboð og flokkunum í bæjarstjórn myndi fjölga.

„Ég átti reyndar von á að flokkarnir yrðu fleiri, það er að segja sem myndu ná inn manni, og ég held það hefði verið gott fyrir bæjarstjórnina og lýðræðið ef þeir hefðu náð inn sínum manni hvor og atkvæði þeirra kjósenda sem studdu bæði Pírata og Framsókn hefðu ekki fallið dauð eins og raunin varð,“ segir hann.

Gunnar Axel ætlar ekki að beita sér fyrir myndun nýs meirihluta í Hafnarfirði. „Ég lít svo á að í niðurstöðum kosninganna felist skýr skilaboð um að fólk vilji breytingar.“