Ríkissjóður verður af tugum milljarða króna á ári hverju vegna kennitöluflakks. Hagsmunirnir eru því miklir fyrir samfélagið að taka á þessu, að sögn Halldórs Grönvolds, aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambandsins (ASÍ). Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að ASÍ hafi tekið þátt í vinnu starfshóps sem skilaði fyrir ári tillögum að aðgerðum til að verjast kennitöluflakki. Ekkert bólar hins vegar á aðgerðum.

Fréttablaðið rifjar upp að kennitöluflakk felur í sér að fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot færir eignir sínar og rekstur í nýtt félag en skilur skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni. Samkvæmt tillögunum sem starfshópurinn lagði fram fyrir um ári yrðu viðurlög hert, t.a.m. heimild til að slíta óvirkum félögum sem ekki hafa skilað ársreikningum í þrjú ár.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir starfshóp vinna að því að kortleggja málaflokkinn og sú vinna sé í fullum gangi. Vandamálið sé hins vegar að kennitöluflakk sé ekki til í lögum. Hópurinn sé að afla gagna til að átta sig á umfanginu. Hún segist eiga von á stöðuskýrslu frá hópnum fljótlega en býst ekki við að leggja fram frumvarp um málið í vor.