Seðlabanki Íslands reiknar með að ferðamönnum muni fækka um 90% á næstu mánuðum miðað við sama tíma í fyrra. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Þórarins Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, á fundi bankans sem hófst kl. 10 í morgun.

Á fundinum fór Þórarinn yfir sviðsmyndagreiningu á hvernig horfur í hagkerfinu gætu orðið á næstunni, en líkt og þekkt er orðið hefur COVID-19 þegar og mun áfram orsaka samdrátt í hagkerfi landsins. Var um að ræða tvær sviðsmyndir, ein mildari og önnur dekkri.

Í þeirri mildari er gert ráð fyrir að eitthvað muni bjargast af sumrinu í ferðamennskunni og að bati muni eiga sér stað á seinni hluta ársins. Í þeirri dekkri er hins vegar gert ráð fyrir að ástandið vegna COVID-19 vari lengur og bati ferðaþjónustunnar verði hægari.

Í mildari myndinni er gert ráð fyrir að ferðamönnum muni fækka um 37% frá því í fyrra, sem samsvari um 14% samdrætti í vöru- og þjónustuútflutningi milli ára. Í dekkri myndinni er hins vegar reiknað með að ferðamönnum muni fækka um 55% frá því í fyrra, sem samsvari um fimmtungs samdrætti í útflutningi vöru og þjónustu. Gert er ráð fyrir svipaðari þróun í innflutningi vöru og þjónustu, þ.e. ferðalögum Íslendinga erlendis.

Sjá má upptöku af fundinum hér að neðan: