Gengi íslensku krónunnar hefur veikst frá því að markaðir opnuðu í morgun gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í kjölfar þess að gjaldeyrishöftin afnumin í gær og því er útflæði peninga nú orðið auðveldara. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að gengisþróunin í morgun hafi í sjálfu sér ekki komið á óvart.

„Búist var við því að þessar aðgerðir, sem eru þannig að það er verið að losa fyrst og fremst um útflæði fjármagns, myndu hafa áhrif í þessa átt,“ segir Ingólfur. „Þær áttu í raun og veru að hafa þessi áhrif í þessa átt, eins og kom fram í gær. Benedikt boðaði fleiri aðgerðir á næstunni til að stemma stigu við gengishækkun krónunnar. Þeir eru augljóslega farnir að hafa áhyggjur af afleiðingum gengisstyrkingar á samkeppnishæfi útflutningsgreina. Það var nokkuð viðbúið,“ bætir hann við.

Höfum náð að rétta af hag þjóðarinnar

Ingólfur bendir á að þegar maður lítur á þessar aðgerðir að þær undirstrika að við höfum náð að rétta af hag þjóðarinnar þannig að við erum með talsverðan afgang af utanríkisviðskiptum, við erum með góða erlenda skuldastöðu, við erum með ríflegan gjaldeyrisvarasjóð og með mikinn hagvöxt hér og stöndum mjög vel gagnvart því að taka svona skref. „Þetta er afsprengi mjög jákvæðra frétta af  innlendu efnahagslífi. Það er verið að færa okkur í átt að vera með gjaldeyrismarkað sem er líkan því sem við erum með í öðrum ríkjum,“ segir hann.

„Undir niðri þar er þessi sterka staða þjóðarbúsins og þessi mikli viðskiptaafgangur sem við höfum séð. Þar spilar inn í þessi mikli vöxtur ferðaþjónustunnar, góð viðskiptakjör og bætt skuldastaða, sem eru lykilstærðirnar í því,“ bætir hann við.

Sér fram á frekari styrkingu til lengri tíma

Spurður út í framtíðarsýn á gengisþróun íslensku krónunnar segir Ingólfur: „Við vorum með afgang af viðskiptajöfnuði sem nam einhverjum 8% af landsframleiðslu í fyrra, sem er mjög mikið. Út frá þeirri mynd og hvað er fram undan til að mynda í rekstri ferðaþjónustunnar, við spáðum um daginn að þetta væri 30% aukning milli ára, og mikil aukning í gjaldeyristekjum, kemst maður að þeirri niðurstöðu að það sé fram undan enn frekari styrking,“ segir Ingólfur.

„Eðlilega hefur ríkisstjórnin áhyggjur af þessu. Maður veit ekki fyrir víst hver þessi töfðu áhrif á ferðaþjónustuna verða. Við gætum séð þau áhrif koma fram á næsta ári eða þar næsta ári. Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur og veikja ekki of samkeppnishæfni annarra greina með einhverju sem gæti verið skammtímauppsveifla. Ég held að áhyggjur þeirra komi fyrst og fremst þaðan. Að við séum ekki að taka út góðærið fyrir fram. Við erum með víti til varnaðar hjá löndum sem hafa lent í slíku,“ bætir hann við að lokum.