*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Erlent 2. janúar 2021 12:03

Reiknar með jákvæðu sjóðstreymi í vor

Forstjóri Delta Air Lines, reiknar með að sjóðstreymi félagsins verði orðið jákvætt á vormánuðum.

Ritstjórn
Ed Bastian, forstjóri Delta Air Lines.
epa

Ed Bastian, forstjóri bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines, reiknar með að sjóðstreymi félagsins verði orðið jákvætt á vormánuðum. Þetta kemur fram í bréfi hans til starfsmanna flugfélagsins, að því er Reuters greinir frá. Líkt og þekkt er orðið hefur alheimsfaraldur kórónuveirunnar orðið til þess að hrun hefur orðið á eftirspurn eftir millilandaflugi.

Kveðst Bastian reikna með því að árið sem er nýgengið í garð verði tvískipt. Fyrstu mánuðir ársins verði svipaðir og mest allt árið 2020 var. Viðsnúningur muni hins vegar eiga sér stað á vormánuðum er búið er að bólusetja fleiri alheimsbúa, sem muni leiða til aukningar í ferðalögum á nýjan leik. Þá sérstaklega muni ferðalög í viðskiptalegum tilgangi ná sér á strik á nýjan leik.

Í október greindi Bastian fjárfestum frá því að Delta myndi byrja að greiða niður skuldir sínar á þessu ári um leið og jákvæðu sjóðstreymi yrði náð.

Stikkorð: Delta Air Lines flug